Útúrtálgaðir skrokkar

Það er rík tilhneiging í nútímasamfélagi að tengja útúrtálgaðan og helskorinn líkamsvöxt við gott líkamlegt form. Forsíður vöðvatímarita og lífsstílssnepla skarta yfirleitt skrokkum á forsíðu með vogskorinn kvið og skarpar útlínur og ekki fituarða í sjónmáli.

En sannleikurinn er sá að slíkt líkamsform er ekki mælikvarði á hreysti, og oft þó síður sé.

Naglinn hefur skorið líkamsfitu niður í öreindir, bæði fyrir fitness mót og myndatökur, og samtímis sem hrósyrðum rigndi inn “vá hvað þú ert komin í gott form” var ólympísk þreyta, hungur, pirringur, endalausar harðsperrur og æfingaleiði í epískum hæðum. Styrkur á æfingum fór hnignandi, þolið og úthaldið máttu muna sinn fífil fegurri og endurheimtin í vöðvunum í frostmarki.

 

 

yoga-journal-KB
Það gladdi því verulega að sjá forsíðu Yoga Journal nýlega með flottri konu á forsíðunni sem endurspeglar eðlilegan líkamsvöxt kvenna með ávalar línur en liðug eins og hlébarði, sterk eins og naut og í stórksostlegu líkamlegu formi sem lætur okkur hin sleikja útum.

 

Heilsa og hreysti eru óháð holdarfari.

Leave a comment

Filed under Æfingar, Þolæfingar, Bölsót, Fitutap, Hugarfar, Mataræði, Styrktarþjálfun

Sjúklega mjúkar brúnkur

PhotoGrid_1415630406219

Það finnast ekki nógu sterk lýsingarorð í íslenskri tungu sem ná utan um gómsætið sem felst í þessum skinhoruðu, sykurlausu og dúnmjúku brúnkum (brownies). Unaðurinn sem hríslast niður hryggjarsúluna mælist í bandvíddum þegar þú sekkur tönnunum í þetta ljúfmeti. Við tyggingu upphefst reifpartý í munnholinu, með sjálflýsandi höfuðböndum og sýrutónlist. Þegar mjúkelsið rennur framhjá úfnum og niður vélindað lamast vinstri handleggurinn af gegnumgangandi líkamlegri sælu.

Sjúklega mjúkar brúnkur
Uppskrift

10 bitar

1 skófla NOW baunaprótín *
3 msk kókoshnetuhveiti (t.d frá Dr. Goerg)
2 msk Hershey’s ósætað kakó
2 msk NOW erythritol
1/2 tsk lyftiduft
2 msk Himnesk hollusta kókoshnetuolía
120 g eggjahvítur
1 lítil dós (400g) graskersmauk (pumpkin purée) **
NOW Better Stevia karamelludropar

 

IMG_8828

 

 

Allt stöffið nema graskersmauk fæst í Nettó

* Hægt að nota súkkulaði casein prótínduft í staðinn

** Hægt að nota soðnar maukaðar gulrætur eða maukaða sæta kartöflu í staðinn

 

PhotoGrid_1415630546906

 

 

Aðferð:
1. Öllu stöffinu dömpað í skál og mauka með töfrasprota
2. Hella í brúnkuform og baka í 40-50 mínútur eða þar til þungur knífur kemur út hreinn eins og barnsrass þegar stungið í miðju

 

 

PhotoGrid_1415630942024

 

Ef þú vilt komast skrefi nær himnaríki þá topparðu gleðina með hnetusmjöri og vanillueggjahvítuís.

 

PhotoGrid_1415630278121

 

 

Naglinn fær mjög oft spurningar um næringargildi í uppskriftunum og af einskærri leti hefur ekki verið lagt í slíka útreikninga en í þetta skiptið braut Naglinn odd af oflæti sínu.

Næringargildi per bita (af 10 bitum): 120 kcal, 11g kolvetni, 6g prótín, 6g fita

Leave a comment

Filed under bakstur, kvöldsnæðingar, Low-carb, prótín, sykurlaust, Uppskriftir

Skinhoruð súkkulaðimússa

Blómkál er guðsgjöf náttúrunnar til heilsugosa, því það er eins og kameljón og getur brugðið sér í allra kvikinda líki. Blómkál eykur líka magn af mat með aðeins örfáum karólínum. Fyrir þá sem mæla lífshamingju í magni af mat eins og Naglinn er slík viðbót eins og að fá símtal frá Brad Pitt með boð í þrjúbíó…popp og kók.

Naglinn hefur undanfarið fengið klámfenginn áhuga á þessu dásamlega grænmeti og hvernig það getur nýst í allskonar fyrir átvögl, og mun afrakstur þeirrar tilraunastarfsemi fá sérstakan dagskrárlið næstu misserin.

 

20140929_151150

 

Fyrst kynnum við á svið: Skinhoraða súkkulaðimússu. Þessari svipar mjög til kókosmússunnar sem einhverjir lesendur kannast eflaust við.
Þetta stöff góðir hálsar er haukur í horni fyrir alla heilsumeli, áferðarperra, matargöt og þykkelsisseggi. Naglinn gerir risaskammt með nokkurra daga millibili og á í dollu í ísskápnum því þessi hitaeiningasnauða himnasending er ekki bara ljúffeng undir tönn, heldur bregður hún sér í hlutverk þykkelsis og mjúkelsis í hinum ýmsu bakstursævintýrum.

 

 

20140529_203726

Uppskrift
1 blómkálshaus, niðurskorinn í blóm
1 msk Hershey’s kakó *
2 msk NOW erythritol
1 msk Sukrin Gold
NOW Better Stevia karamelludropar
klípa sjávarsalt

Allt stöffið í mússuna fæst í Nettó.
* Naglinn notar Special dark Hershey’s kakó sem fæst eingöngu í US of A, en venjulegt Hershey’s fæst í Nettó og blífar fínt líka.

L
Aðferð:
1) Sjóða blómkál í potti í 20-25 mínútur eða örra í Sistema gufusoðningargræju í 7-10 mínútur. Blómin eiga að vera vel mjúk.
2) Sigta vatnið frá og skella blómunum aftur í pottinn, eða dömpa gufusoðnum blómum í djúpa skál.
3) henda öllu stöffinu í pottinn og mauka með töfrasprota.  Geymt í kæli og langbest ískalt. Það má jafnvel frysta þessa gleði og borða eins og ís.

Naglinn notar mússuna… mússí mússí…. aðallega í eftirfarandi:

- kaffibollakökur
bakaða hafragrauta
prótínbrauð
diet kók súkkulaðiköku
prótínbúðing (gerir hann enn þykkari.. þú þarft hníf og gaffal í aðgerðina)
– súkkulaðiavókadómússu
– til að dýfa puttunum í þegar ísskápurinn er opnaður… djók…nei..jú..nei…

Leave a comment

Filed under bakstur, kvöldsnæðingar, Low-carb, sykurlaust, Uppskriftir

Rækju stir-fry Naglans

IMG_1779

 

Þessi réttur er í miklu uppáhaldi hjá Naglanum. Einfaldur, fljótlegur, horaður og hollur. Svolítið eins og Naglasúpa (skiljið þið brandarann) því það má skella í hann því sem til er í ísskápnum hverju sinni. Engar rækjur? Notaðu kjúlla eða naut. Ekkert brokkolí? Blómkál eða spínat fúnkera fínt í staðinn.

Uppskrift

1 skammtur

1 hvítlauksrif marið
1/4 laukur
nokkrir sveppir
gufusoðið brokkolí
100-200 g soðin hýðisgrjón
150g frosnar eða ferskar rækjur
Kikkoman Teriayki
sojasósa

 

IMG_1774

 

 

Aðferð:

1. steikja lauk og hvítlauk þar til fagur gull litaðir. Bæta þá sveppum við og steikja þar til mjúkir.
2. Skella soðnum grjónum og rækjum á pönnuna ásamt skvettu af vatni, Teriyaki og soja og leyfa að malla smástund
3. Brokkolíið útá herlegheitin og hrista vel saman
4. Voilá… gerist ekki einfaldara og fljótlegra

 

Naglinn gerir yfirleitt stóran skammt af soðnum hýðisgrjónum einu sinni til tvisvar í viku í Sistema græjunni sinni (fæst í Nettó) og á tilbúið í ísskápnum. Því tekur ekki nema örfáar mínútur að henda þessu gúrmeti saman.

 

Sistema örbylgju hrísgrjóna gufusjóðari

Sistema örbylgju hrísgrjóna gufusjóðari

 

Sykurlaus súrsæt sósa eða horað chili mæjó er síðan lögbundin viðbót við þennan rétt.

 

IMG_1777

 

 

Leave a comment

Filed under kjöt og fiskur, Uppskriftir

Horuð klessukaka

Naglinn fer oft yfir pollinn til Svíaveldis til sjoppunar á fóðrunarvörum í ICA maxi Västra Hämnen í Malmö því sænskurinn aðhyllist töluvert meiri frjálshyggju en fyrrum drottnarar Skánar með mun breiðara vöruúrval af allskonar hollustuvörum og ammerísku stöffi fyrir átvögl.

Á strolli sínu um lendur Málmeyjar eru sætabrauð á hverju strái því “Fika stund” er heilög stund hjá Svíanum en þá er munnholið glatt yfir kökusneið eða öðrum dísætum afurðum.

Þjóðarrétturinn í slíku sætmeti er “kladdkaka” eða klessukaka upp á hið ylhýra og er guðsgjöf til bragðlaukanna, en kaloríubomba mikil þar sem sykur og smjör úsar af disknum. Naglinn er með pervertískan áhuga á að útbúa hollari og horaðri útgáfur af allskonar lekkermeti til að flétta inn í daglegu gleðina og halda þannig púkanum sáttum samtímis að ná markmiðum sínum án sykurþynnku og slens.

Og vessgú… nýjasta hausableytingin skilaði niðurstöðu af horaðri og hollri klessköku sem slær forvera sínum ekkert eftir í bragði og áferð.

Kladdkaka-1

 

 

Klessukaka Naglans

Uppskrift
1 kaka, c.a 8 bitar

2 dl NOW möndlumjöl
3 msk rifinn kókos
4 msk Hershey’s ósætað kakó
1 tsk lyftiduft
klípa salt
2 msk Himnesk hollusta kókosolía
1 msk hunang
3 heil egg
8-10 döðlur

 

NOW almond flour

 

Aðferð:

1. Stilla ofn á 175°C
2. smyrja lausbotna form (18 cm þvermál) með kókosolíu og dreifa rifnum kókos í botninn
3. Blanda öllu þurra stöffinu saman. Blanda döðlum og hunangi saman í matvinnsluvél. Bæta eggjunum útí og blanda aftur.
4. Bræða kókosolíuna í örranum. Hella þurra stöffinu út í eggjahræruna og síðan kókosolíunni. Blanda öllu vel saman.
5. Baka í 10 mínútur. Kakan á að vera klessuð og blaut þegar hún kemur úr ofninum.
6. Kæla í a.m.k 1 klukkustund áður en þessum unaði er graðgað í ginið. Búðu þig undir lengsta klukkutíma í lífinu. Bera fram með horuðum þeyttum rjóma úr undanrennu (gert með Bamix töfrasprota), eða skyri með Better Stevia French Vanilla dropum.

 

Kladdkaka-2

 

* Allt stöffið í þessa dásemd fæst í Nettó

Leave a comment

Filed under bakstur, Low-carb, sykurlaust, Uppskriftir

Ostatortillur Naglans

Naglinn elskar vefjur. Það er eitthvað sem fullnægir áferðarperranum við að sökkva tönnunum í upprúllaðan vöndul þar sem innvolsið gumsast út og inn í munnholið. Vefjur eru á borðum nokkrum sinnum í viku og það sem er dásamlegast er að þær geta tekið á sig allra kvikinda líki eftir því hvaða krydd eru brúkuð eða hvaða lekkerheit fara í fyllinguna.

 

20140929_124401

 

 

 

Naglinn notaði næringarger í þessar elskur til að fá ostabragðsfílinginn og þessi átupplifun sendi áferðarperrann beint í áfallahjálp. Af hverju hafði Naglanum ekki löngu dottið í hug þessi kombinasjón???

 

IMG_8649

Uppskrift
2 stk

150 ml (5 stk) eggjahvítur
1/2 skófla NOW baunaprótín
1 msk Psyllium Husk
1
 msk Naturata næringarger
1/2 tsk hvítlauksduft
salt og pipar

 

* Allt stöffið fæst í Nettó.

 

1. Blanda öllu saman með töfrasprota þar til engir klumpar lengur.

2. Slumma helming af deiginu á sjóðandi heita smurða/spreyjaða pönnu og dreifa vel úr. Lækka niður í miðlungshita.
3. Snúa við eins og pönnuköku þegar hún er orðin þurr á mallanum og steikja í 1-2 mín
4. Endurtaka leikinn fyrir hinn helminginn af deiginu.

Voilá… tvær gómsætar berrassaðar vefjur bíða fyllingar.

 

20140929_124242

 

Á tímum þar sem matarsóun er í hámarki eru vefjur haukur í horni því það má dúndra í þær afgöngum gærdagsins eða hvaða gúmmulaði sem ísskápurinn hefur að geyma og búa til lekkera máltíð á nó tæm.

 

 

20140925_120827

 

Lágkolvetna. Hitaeiningasnauðar (200 kcal). Glúteinlausar. Fljótlegar. Gómsætar.
Naglinn bíður svo bara eftir þakkarbréfunum frá ykkur.

Leave a comment

Filed under bakstur, kvöldsnæðingar, Low-carb, prótín, sykurlaust, Uppskriftir

Matreiðslunámskeið Röggu Nagla á Suðurnesjum

Naglinn hefur fengið fjölmargar fyrirspurnir frá heilsumelum frá öllum landshlutum um að komao og halda matreiðslunámskeið. Að sjálfsögðu verður orðið við þeim óskum, og byrjað á þeim eðal landshluta, Suðurnesjum.

Matreiðslunámskeið Röggu Nagla í samstarfi við Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum verður haldið fimmtudaginn 30. október kl 17-21 í Grunnskóla Grindavíkur.

 

Skráning í gleðina er hér.

Athugið að það seldist upp á fyrri námskeið á örfáum tímum svo það er að hrökkva eða stökkva til að tryggja sér pláss

Leave a comment

Filed under bakstur, Mataræði, Sjoppur, Uppskriftir